Friday, October 18, 2013

Dagur 18


Day 18 - Release
What do you want to let go of this journey of grief? Is it fear? Guilt? Worry? Deep sadness? Regrets ?

Það fyrsta sem kom upp í hugann er samviskubit. Þetta óvelkomna samviskubit sem á enganveginn rétt á sér. Þá er ég að tala um samviskubit sem að kemur við það að gera eitthvað skemmtilegt, eða þegar maður gleymir sér í einhvern smá tíma. Ég hef nokkrum sinnum skrifað um þetta og hef verið að vinna í því að losna við þetta með því að leyfa ekki sjálfri mér að brjóta mig niður á þennan hátt. Það er erfitt en það virðist virka.

Mig langar líka að losna við "hvað ef" spurningarnar sem að koma oft upp. Hvað ef hún hefði fæðst degi fyrir settan dag? Hvað ef ljósmóðirin hefði hlustað betur á mig þegar ég hafði áhyggjur að minnkuðum hreyfingum? Hvað ef ég hefði farið fyrr upp á spítala? Þessar spurningar gera mér ekki gott og ég græði ekkert nema vanlíðan á að hugsa svona.

Ég er ekki sátt með ljósmóðurina sem tók á móti mér í mæðravernd í síðasta skipti sem ég fór þangað, ljósmóðirin mín var í fríi og þessi var að leysa hana af. Hún var eitthvað svo köld og ég man að mér leið eins og hún hafði ekki tíma fyrir mig. Mér fannst hún ekki heldur hlusta á mig. Ég var orðin stressuð fyrir fæðingunni og svo hafði ég miklar áhyggjur vegna þess að hreyfingarnar voru orðnar svo litlar.. Svarið sem ég fékk var að barnið væri orðið svo stórt og plássið sem hún hefði væri ekki mikið, já ég heyrði hjartsláttinn en samt er einhver reiði innst inni gagnvart þessari konu. Mig langar að losna við hana en ég á svoldið erfitt með það.

- Sóley




No comments:

Post a Comment