Tuesday, January 21, 2014

Öfund


Ég les oft greinar sem eru á Still standing magazine og stundum finst mér ég hafa getað skrifað hlutina sjálf. Eða í raunini vildi ég óska þess að ég gæti komið hlutunum jafn vel frá mér og margar konur sem hafa skrifað fyrir þetta tímarit.
Áðan rakst ég á grein sem að fjallar um öfund. Það er hægt að lesa hana HÉR en þarna fjallar hún um öfundina sem býr innra með manni. Öfund sem að kemur þegar maður vill ekkert með hana hafa og ræður ekkert við þá tilfinningu.

Ég get alveg sagt að ég öfunda þær konur sem að búa yfir sakleysinu sem fylgir meðgöngu, sakleysi sem ég eitt sinn hafði.

Ég öfunda þær konur sem að fá ekki sting í magann og þurfa að hugsa sig um hvað þær eigi að segja þegar þær eru spurðar hvort þær eiga börn eða hvað þær eiga mörg börn. Ég öfunda líka þær konur sem að vita ekki hversu sárt það getur verið að segja sannleikann eða hversu vont það getur verið að segja ekki alla söguna.

En á sama tíma og þessi öfund býr innra með mér þá er ég ótrúlega glöð fyrir hönd allra foreldra, allra foreldra sem hafa ekki þurft að ganga í gegnum allt sem að fylgir því að missa barnið sitt. Þetta er eitthvað sem maður óskar ekki neinum og vill ekki að neinn annar þurfið að upplifa.

Þetta eru tilfinningar sem að ekki margir skilja, tilfinningin sem kemur þegar að þú fréttir af því að einhver er óléttur. Eða þegar þú sérð kasólétta konu út í búð eða í skólanum.

Ætli niðurstaðan sé ekki sú að ég öfunda konur útaf þessu áhyggjuleysi og sakleysi sem að ég eitt sinn hafði og mun aldrei getað upplifað aftur. Það mun alltaf vera þessi hræðsla til staðar, sérstaklega þegar að tölfræðin er ekki með mér í liði. Ein meðganga - Eitt barn sem dó sem kemur út í 100% slæmum endi.

Ég er farin að skrifa í hringi og ég er ekki viss um að nokkur manneskja skilji hvað ég er að reyna að segja en samt ætla ég að deila þessu með ykkur sem að viljið lesa ruglið sem er að brjótast um í hausnum á mér.



kv. Sóley 

Monday, January 13, 2014

The Deafening Silence


Ég var rétt í þessu að enda við að horfa á þessa stuttmynd á youtube. Þetta er mynd sem var gerð til þess að útskýra fyrir ljósmæðrum og öðru starfsfólki spítala sem sjá um andvana fæðingar upplifun foreldra. Þessi mynd er svoldið bresk en hún er vel gerð og ekkert ýkt. Nokkuð mörg tár fengu að falla þegar ég var að horfa á hana og það losaði um stíflu í nefinu....




Ég er búin að vera með svoldið mikið kvef og ofan á það er ég að fá hálsbólgu og hausverk til hliðar. Ég fór í skólann í morgun vegna þess að það var bara stuttur dagur en síðan ég kom heim er ég búin að vera eins og illa gerður hlutur. Held að ég sé komin með "man-flu" og vorkenni sjálfri mér voðalega mikið. 

Ég mæli allavega með því að horfa á þessa mynd, sérstaklega fyrir fólk sem vinnur á spítulum, hún er bara um 20 mínútur. 

 - Sóley

Friday, January 10, 2014

Ný önn



Þá er þriðja önnin mín í kennaranum að fara að byrja og ég er bara frekar spennt. Ég verð í fimm áföngum og það verður örugglega svolítið mikil verkefna vinna í þeim þar sem þeir byggjast flestir á símati. Það góða við það er að ég fer líklegast ekki í nein lokapróf!
Ég ætla líka að halda mig við 40% vinnu þar sem að það var bara passlegt hlutfall í fyrra. Þá verð ég að vinna svona aðrahverja helgi og kanski eitt og eitt kvöld. 


Það styttist líka á danmerkur ferðina mína og ég er bara orðin svoldið spennt. Það er svo langt síðan ég pantaði flugið að það er eiginlega óraunverulegt hvað er stutt í þetta. Ég þarf að bruna til Reykjavíkur á þriðjudegi eftir skóla og svo er flug snemma á miðvikudagsmorgni (29.jan). Helsta áskorunin er samt að fara til útlanda með lítinn pening og eyða ekki of miklu. Mig vantar eitthvað af fötum þannig að ég þarf aðeins að fara í búðir en að öðru leiti ætla ég bara að vera túristi og njóta þess að hafa gaman með nokkrum vinkonum.

Ég ætla allavega að gera mitt besta í að halda í jákvæðnina þetta árið.. Ég fór í smá neikvæðnisgír um daginn þegar ég áttaði mig á að ég var ekki búin að vera nógu dugleg að spara fyrir útlanda ferð og var farin að hugsa um að hætta við að fara. En ég hugsa að þetta reddast, ég þarf bara að halda að mér höndum í búðunum sem að verður ákveðin áskorun. Svo er náttúrulega alltaf gaman að heimsækja góða vinkonu sem maður hittir alltof sjaldan. 

- Sóley






Saturday, January 4, 2014

:)


Ég mun ekki gleyma þeim sem hafa verið til staðar fyrir mig þegar ég þarf á því að halda, það þarf ekki að hafa verið mikið en allskonar litlir hlutir á stundum sem maður þurfti að fá aðeins að tala. - Bara það að hafa einhverja sem vilja hlusta á það sem maður hefur að segja án þess að dæma. Eða þeir sem að spyrja "hvernig hefuru það?" og vilja virkilega vita svarið.
Takk 


Ég tók eftir því þegar ég skráði mig inn á síðuna mína í dag að það eru komnar yfir fimm þúsund heimsóknir síðan ég byrjaði með hana.

- Sóley