Saturday, October 15, 2016

Það vantar þig - 4 ár




Í dag eru komin 4 ár frá því að Helena Sif fæddist.
Og í dag er einnig alþjóðlegur dagur barnsmissis.

Mig langar að deila með ykkur ljóði sem ég las á minningarathöfn sem haldin var í Akraneskirkju i morgun.


Það vantar þig

Það vantar þig
Það vantar þig við matarborðið
Það vantar þig inn á heimilð okkar.
Það vantar þig á hátíðardögum, sumarfríum og alla aðra daga.
Litla barnið okkar er farið.


Þú munt ekki halda upp á afmæli, eiga fyrsta skóladaginn eða útskrifast.
Við munum alltaf sakna þín.
Það vantar alltaf einn fjölskyldumeðlim.
Það vantar þig, en samt höldum við áfram.
Þú skildi eftir lítil fótspor í hjörtum okkar.
Þrátt fyrir stutta tilveru
Við höldum minningu þinni á lífi - Þú lifir i hugum okkar og hjörtum.

þrátt fyrir það mun alltaf vanta þig.


Mynd frá Sóley Guðmundsdóttir


Friday, September 5, 2014

38 vikur - Meðganga eftir missi


Mér tókst það, ég er gengin 38 vikur í dag! Litli prinsinn er orðinn stór og flottur og virðist hafa það mjög gott í bumbuni. 


Ég er ekki búin að vera jafn opin með mínar tilfinningar og ég hafði hugsað mér að vera, sumt vill maður bara hafa fyrir sig og ég hef þar að leiðandi ekki bloggað neitt síðustu vikur. Ég er reyndar búin að vera frekar anti-social í sumar og búið mér til einhverskonar ósýnilegan varnarvegg..  Ég á samt sem betur fer nokkrar góðar vinkonur og yndislegann kærasta sem hafa reynst mér mjög vel.  Síðustu vikur hafa samt verið mjög fljótar að líða. Það er búið að vera mikið að gera en dagarnir hafa verið misjafnir, suma daga var kvíðinn mjög mikill og ég átti frekar marga slæma daga í ágúst. Ég vil samt halda þessari færslu á jákvæðari nótunum þar sem ég vil halda í jákvæðnina sem hefur fylgt mér síðustu viku. Mér virðist líða best þegar ég næ að hvílast vel og þegar ég hef eitthvað að gera yfir daginn og ég hef passað mig á því að halda góðu jafnvægi þarna á milli. 

Akkurat núna líður mér vel og ég get sagt að tilhlökkunin sé mun meiri heldur en kvíðinn. Ég er orðin mjög spennt að fá að hitta þennan litla einstakling sem að er búinn að fylgja mér í 9 mánuði og fá að kynnast honum betur. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þessa meðgöngu, hún er búin að ganga rosalega vel og ég hef verið mjög heilsuhraust. Er þó orðin frekar þreytt núna og sef ekki jafn vel og áður en það fylgir þessu víst :)

Nú er ótrúlega lítið eftir og það eru viðkvæmir tímar framundan hjá litlu fjölskylduni minni og mig langar bara að minna á það að söknuðurinn og sorgin fylgir okkur enþá. Gleðin og sorgin haldast oft í hendur og það getur verið erfitt að skilja þar á milli. Sama hvað verður þá mun Helena Sif alltaf fylgja minni fjölskyldu og ég er enþá að læra að lifa með þessum mikla missi.
Ég er líka búin að loka facebook veggnum mínum þar sem okkur langar sjálfum að tilkynna komu litla stráksins okkar, vonandi munu allir virða það. 



Sóley 



Monday, June 16, 2014

26v3d meðganga eftir missi


Ég trúi því varla að það eru komnir tveir mánuðir síðan ég bloggaði síðast, tíminn líður svo sannarlega hratta þessa dagana. Ég er nokkrum sinnum búin að ætla mér að skrifa smá updeit en svo byrja ég bara að skrifa í hringi! Í þetta skipti ætla ég að koma nokkrum línum frá mér þó að ég gæti skrifað endalaust..

Meðgangan sjálf gengur vel, ég er heilsuhraust en oft svoldið þreytt. Krílið stækkar hratt og ég finn að kúlan er öðruvísi í laginu heldur en kúlan mín þegar ég gekk með Helenu Sif. Hún er einhvernvegin framstæðari og þyngri. Stuttu eftir að við fluttum suður byrjaði ég í eftirliti á landspítalanum þar sem meðgangan er talin sem áhættu meðganga. Ég er svona að venjast umhverfinu þarna þar sem þetta er mun stærr og stofnanalegra heldur en á Akureyri. Til að byrja með ætla ég að mæta aðra hverja viku til að byrja með og svo oftar þegar ég verð komin lengra á leið. Mér finnst það passlegt eins og staðan er í dag en ég fæ aðeins að stjórna þessu sjálf.
Ég hugsa að ég sé akkurat á besta tíma meðgöngunnar núna, ég finn miklar hreyfingar og er ekki orðin of þung á mér. Ég er byrjuð í meðgöngusundi og það er ekkert nema frábært þar sem ég er með "sundsýki" á háu stigi.

Almennt séð er mér búið að líða frekar vel alveg síðan á svona viku 18 en þá fór ég að finna reglulegar hreyfingar. Ég hugsa að það hafi líka hjálpað mér að fá það staðfest að við ættum von á litlum strák. Við ákváðum að fá að vita kynið og mér finnst ég ná að tengjast honum betur að einhvejru leiti. Það hjálpar mér líka að skilja þessa meðgöngu frá síðustu meðgöngu þó svo að ég sé alltaf að bera þær saman (eins og flestar konur sem hafa gengið með fleiri en eitt barn gera). Ég náði einhvernvegin að aðgreina meðgöngurnar betur í sundur og átta mig betur á því að þetta er önnur meðganga og annað barn og þó svo að ég viti ekki fyrir víst að þessi meðganga muni enda vel þá hef ég samt góða tilfinningu fyrir henni. Ég er ótrúlega ástfangin af litla stráknum í bumbuni minni og ég veit ekkert betra en að finna hann hreyfa sig og vita að það er allt í lagi með hann. Hann er mér til mikillar gleði mjög aktívur og er mjög duglegur að láta vita af sér.

Ég hef samt fengið nokkur bakslög og þá sérstaklega fyrir ca. 2 vikum. Það fylgir víst sorgini og því að vera að balancera nýrri gleði/von og hræðsluni/sorgini sem býr innra með mér. Sumir hlutir eru erfiðir og aðrir "triggera" gamlar tilfinningar en aðal málið er að komast yfir þessar hindranir og ná að halda í vonina.



Íbúðarmálin okkar eru búin að leysast og nú er bara að bíða eftir mánaðarmótunum þar sem við fáum íbúð afhenta 1. júlí :) Ég hlakka til að koma okkur fyrir á nýju heimili þar sem við erum búin að búa í kössum núna alveg síðan í apríl/maí. Það verður líka voðalega gott að sofa í rúminu okkar aftur! Svo verður líka fínt að hafa nægann tíma í hreiðurgerð áður en litli kútur mætir á svæðið, ég er búin að vera með "cravings" í IKEA núna í nokkrar vikur en ætla ekki að fara fyrr en við erum búin að flytja.

Ég er líka byrjuð að vinna og það gengur ágætlega, suma daga er ég samt rosalega þreytt eftir daginn en það fer að venjast! Síðasta önn í skólanum var aðeins of þægileg að þvi leiti að ég þurft ekki oft að mæta snemma í skólann og það er örugglega ástæðan fyrir því að ég er svona lengi að venjast fullum vinnudegi.


- Sóley

Wednesday, April 23, 2014

Allt að gerast


Mikið rosalega eru síðustu vikurnar búnar að líða hratt. Það er nóg að gera og nóg að huga að, við flytjum alveg frá Akureyri eftir ca. 2 vikur og svo byrja ég bráðum í sumarvinnuni. Fyrst þarf ég að drífa í því að klára eina ritgerð, læra fyrir eitt próf, pakka restini af búslóðini og þrífa íbúðina.. Við ætlum svo að eyða einni viku í sveitini þar sem að sauðburðurinn er á fullu á þessum tíma og svo byrjar Gísli í nýrri vinnu og ég í gömlu góðu vinnuni minni!

Ég get ekki beðið eftir maí, hann er uppáhalds mánuðurinn minn og það eru alveg nokkrar ástæður fyrir því.. Skólinn klárast alltaf í byrjun maí, það er orðið svo bjart og byrjað að hlýna, ég byrja í sumarvinnuni minni og svo má ekki gleyma afmælisdeginum mínum í lok maí! Miðað við síðustu vikur þá held ég að sumarið muni koma og fara mjög fljótt en það er um að gera að reyna að njóta þess :) 


Í dag er ég gegnin 18 vikur og 5 daga sem að þýðir að meðgangan er næstumþví hálfnuð! 
Meðgangan er búin að ganga mjög vel, litla krílið dafnar vel í bumbuni og er farið að sparka svoldið í mig. Ég er búin að fara í sónar ca. aðra hverja viku frá 12 vikna sónarnum og hinar vikurnar hef ég hitt ljósmóðir og fengið að heyra hjartslátt. Þetta fyrirkomulag hefur hentað mér vel og mér líður betur þegar ég veit hvenær ég á að mæta næst og er með svolítið skipulag á þessu öllu saman. Við förum í 20 vikna sónarinn á miðvikudaginn í næstu viku og ég vona að allt eigi eftir að koma vel út í þeirri skoðun.
Ég mun svo flytja mig yfir á Landspítalann og vera í eftirliti þar það sem eftir er af meðgönguni, það er svolítið stressandi að þurfa að hitta nýja lækna og ljósmæður en það er eitthvað sem ég verð að gera.

Síðastliðna viku er mér búið að líða nokkuð vel, er í frekar góðu jafnvægi og bara nokkuð sátt. Þetta er samt búið að vera mjög erfiður tími, miklu erfiðari en ég hefði getað ímyndað mér þar semað hræðslan við það að eitthvað komi fyrir þetta barn líka er alveg ótrúlega sterk. Ég reyni því eftir bestu getu að halda í góðu stundirnar og vonina sem að býr innra með mér. Auknar hreyfingar hjá barninu og bjartari tímar eru að hjálpa til við að halda í gleðina :) 

Ég ætla að ljúka þessari færslu á einni bumbumynd :) Ég er búin að taka upp óléttufötin og þessi sumarlegi kjóll er hluti af þeim. Ég keypti hann reyndar óvart á Spáni síðasta sumar í H&M og tók svo eftir því þegar ég notaði hann fyrst að þetta væri kjóll úr "mama" línuni þeirra! En hann mun líklegast vera mikið notaður í sumar :) 




kv. Sóley 

Friday, April 4, 2014

16 vikur - Meðganga eftir missi


Þar sem að það gengur ekkert hjá mér að vinna í verkefni sem ég þarf að skila um helgina þá er bara um að gera að skella í eitt lítið blogg!

Síðustu tvær vikur hafa liðið ágætlega hratt þar sem það er búið að vera nóg að gera. Í dag er ég komin 16 vikur á leið og allt tengt meðgönguni sjálfri hefur gengið mjög vel. Við fórum í auka sónar á mánudaginn og sáum litla krílið okkar, það er svo gaman að sjá hvernig það stækkar og breytist í hvert skipti sem maður fer í sónar. Ég er líka búin að vera að finna smá hreyfingar, ég fann fyrst hreyfingar þegar ég var rétt komin 12 og hálfa viku en þetta hefur orðið sterkara með hverri vikuni. Þó að hreyfingarnar séu óreglulegar og ekki á hverjum degi þá er ég ótrúlega þakklát fyrir að fá eitt og eitt spark af og til.. Ég vona bara að þetta fari að aukast meira og þá munu áhyggjurnar mínar vonandi minnka með tímanum!

Síðustu vikur hafa einkennst af miklum kvíða en þó gleði.. Þessar tilfinningar spila ekkert rosalega vel saman og þegar maður bætir margföldum skammti af hormónum í þessa blöndu þá getur lífið stundum verið frekar erfitt..
Eins og ég hef svo oft komið með eitthvað frá CarlyMarie hingað inn þá langar mig að deila þessari möntru með ykkur. Þetta er eitthvað sem ég er búin að lesa oft of mörgum sinnum og er að vinna í að tileinka mér. Ég er nefnilega að gera mitt besta að vera jákvæð og bjartsýn þó að það geti nú verið svolítið erfitt stundum.


Í þessari viku byrjaði ég svo í meðgöngusundi, þó svo að ég sé "bara" komin 16 vikur þá er það eitthvað sem ég virkilega þarf á að halda. Mjaðmagrindin mín er nefnilega farin að stríða mér svolítið og mig langar að gera mitt besta í að koma í veg fyrir mikil óþægindi í henni. Ég ekki mikið til á síðustu meðgöngu (allavega ekki í minninguni) en núna er ég strax farin að finna óþægindi og ljósmóðirin mín talaði um að þar sem það er minna en 1,5 ár frá síðustu fæðingu þá getur maður verið extra viðkvæmur og hormónarnir í líkamanum eru ekkert að hjálpa til við það. Ég ætla allavega að halda áfram að mæta í sundið þegar ég get og fara líka oftar í sund sjálf. Svo hlakka ég til að prófa meðgöngujóga í vatni þegar við flytjum suður.

Ég vona að tíminn haldi áfram að líða svona hratt þar sem ég er farin að hlakka til að flytja, þó svo að ég kvíði reyndar svolítið fyrir því að þurfa að skipta um ljósmóðir og lækni. Mér líkar líka mjög vel við meðgöngueftirlitið hér og hræðist svolítið stóra landspítalann þar sem að maður verður örugglega meira ósýnilegur heldur en hér fyrir norðan!

Þetta varð nú aðeins lengra en ég hafði hugsað mér en það er aðeins skemmtilegra að blogga heldur en að skrifa útdrátt úr leiðinlegri fræðigrein! 

- Sóley



Friday, March 21, 2014

Lítið "leyndarmál"


Ég á lítið leyndarmál sem að er samt ekkert leyndarmál lengur!

Það er til orðatiltæki sem að segir að eftir storminn komi regnbogi sem að færir lífinu lit á ný. Fegurð regnbogans breytir þó ekki öllu, minningin og eftirleikar stormsins er enn til staðar. En Þessi regnbogi færir von um betri og bjartari tíma. Þessvegna er oft talað um „regnboga börn“.
Mig langar að deila með ykkur að ég er ólétt og ég er að vonast eftir því að fá regnboga barnið okkar í hendurnar í miðjum september. Settur dagur á litlu systir eða litla bróðir Helenu Sifjar er 19. September 2014 sem að er ca. mánuði fyrir tveggja ára afmælið hennar.  

Á sama tíma og ég deili þessum gleði fréttum með ykkur þá langar mig að segja að það eru allskonar tilfinningar sem að fylgja því að verða óléttur og að ganga með barn eftir að maður missir barnið sitt. Þessi meðganga er búin að vera mér erfið og ég veit að ég mun ekki verða fullkomlega róleg fyrr en ég heyri þetta barn gráta þegar það kemur í heiminn. Þrátt fyrir allar erfiðu tilfinningarnar sem að fylgja þá sé ég bjarta tíma framundan.  Ég er með mikla von í hjartanu og vonast eftir því að geta notið þess að vera ólétt og að ég nái góðri tengingu við þetta barn. 


Ég hef góða tilfinningu fyrir þessari meðgöngu og oftast er ég bjartsýn og horfi fram á við. Mig langar að blogga aðeins um mína reynslu og mína upplifun og mun að öllu líkindu gera það.

- Sóley


"I deserve this. It is okay to dream. It is okay to hope. Pregnancy can and will be beautifull - for as many days as that may be." - Franchesca Cox




Wednesday, March 19, 2014

Rétta hugarfarið



Það er svo margt fallegt sem að kemur frá Carly Marie 
Nýjasta frá henni eru svona "mantra" sem að ég veit ekki alveg hvað þýðir á íslensku en ætli þetta sé ekki svolítið mind over matter. Hún hefur verið að setja inn nýjar myndir í hverri viku og sumar þeirra eiga ótrúlega vil það sem að maður er að upplifa eða ef maður þarf extra styrk.