Wednesday, April 23, 2014

Allt að gerast


Mikið rosalega eru síðustu vikurnar búnar að líða hratt. Það er nóg að gera og nóg að huga að, við flytjum alveg frá Akureyri eftir ca. 2 vikur og svo byrja ég bráðum í sumarvinnuni. Fyrst þarf ég að drífa í því að klára eina ritgerð, læra fyrir eitt próf, pakka restini af búslóðini og þrífa íbúðina.. Við ætlum svo að eyða einni viku í sveitini þar sem að sauðburðurinn er á fullu á þessum tíma og svo byrjar Gísli í nýrri vinnu og ég í gömlu góðu vinnuni minni!

Ég get ekki beðið eftir maí, hann er uppáhalds mánuðurinn minn og það eru alveg nokkrar ástæður fyrir því.. Skólinn klárast alltaf í byrjun maí, það er orðið svo bjart og byrjað að hlýna, ég byrja í sumarvinnuni minni og svo má ekki gleyma afmælisdeginum mínum í lok maí! Miðað við síðustu vikur þá held ég að sumarið muni koma og fara mjög fljótt en það er um að gera að reyna að njóta þess :) 


Í dag er ég gegnin 18 vikur og 5 daga sem að þýðir að meðgangan er næstumþví hálfnuð! 
Meðgangan er búin að ganga mjög vel, litla krílið dafnar vel í bumbuni og er farið að sparka svoldið í mig. Ég er búin að fara í sónar ca. aðra hverja viku frá 12 vikna sónarnum og hinar vikurnar hef ég hitt ljósmóðir og fengið að heyra hjartslátt. Þetta fyrirkomulag hefur hentað mér vel og mér líður betur þegar ég veit hvenær ég á að mæta næst og er með svolítið skipulag á þessu öllu saman. Við förum í 20 vikna sónarinn á miðvikudaginn í næstu viku og ég vona að allt eigi eftir að koma vel út í þeirri skoðun.
Ég mun svo flytja mig yfir á Landspítalann og vera í eftirliti þar það sem eftir er af meðgönguni, það er svolítið stressandi að þurfa að hitta nýja lækna og ljósmæður en það er eitthvað sem ég verð að gera.

Síðastliðna viku er mér búið að líða nokkuð vel, er í frekar góðu jafnvægi og bara nokkuð sátt. Þetta er samt búið að vera mjög erfiður tími, miklu erfiðari en ég hefði getað ímyndað mér þar semað hræðslan við það að eitthvað komi fyrir þetta barn líka er alveg ótrúlega sterk. Ég reyni því eftir bestu getu að halda í góðu stundirnar og vonina sem að býr innra með mér. Auknar hreyfingar hjá barninu og bjartari tímar eru að hjálpa til við að halda í gleðina :) 

Ég ætla að ljúka þessari færslu á einni bumbumynd :) Ég er búin að taka upp óléttufötin og þessi sumarlegi kjóll er hluti af þeim. Ég keypti hann reyndar óvart á Spáni síðasta sumar í H&M og tók svo eftir því þegar ég notaði hann fyrst að þetta væri kjóll úr "mama" línuni þeirra! En hann mun líklegast vera mikið notaður í sumar :) 




kv. Sóley 

Friday, April 4, 2014

16 vikur - Meðganga eftir missi


Þar sem að það gengur ekkert hjá mér að vinna í verkefni sem ég þarf að skila um helgina þá er bara um að gera að skella í eitt lítið blogg!

Síðustu tvær vikur hafa liðið ágætlega hratt þar sem það er búið að vera nóg að gera. Í dag er ég komin 16 vikur á leið og allt tengt meðgönguni sjálfri hefur gengið mjög vel. Við fórum í auka sónar á mánudaginn og sáum litla krílið okkar, það er svo gaman að sjá hvernig það stækkar og breytist í hvert skipti sem maður fer í sónar. Ég er líka búin að vera að finna smá hreyfingar, ég fann fyrst hreyfingar þegar ég var rétt komin 12 og hálfa viku en þetta hefur orðið sterkara með hverri vikuni. Þó að hreyfingarnar séu óreglulegar og ekki á hverjum degi þá er ég ótrúlega þakklát fyrir að fá eitt og eitt spark af og til.. Ég vona bara að þetta fari að aukast meira og þá munu áhyggjurnar mínar vonandi minnka með tímanum!

Síðustu vikur hafa einkennst af miklum kvíða en þó gleði.. Þessar tilfinningar spila ekkert rosalega vel saman og þegar maður bætir margföldum skammti af hormónum í þessa blöndu þá getur lífið stundum verið frekar erfitt..
Eins og ég hef svo oft komið með eitthvað frá CarlyMarie hingað inn þá langar mig að deila þessari möntru með ykkur. Þetta er eitthvað sem ég er búin að lesa oft of mörgum sinnum og er að vinna í að tileinka mér. Ég er nefnilega að gera mitt besta að vera jákvæð og bjartsýn þó að það geti nú verið svolítið erfitt stundum.


Í þessari viku byrjaði ég svo í meðgöngusundi, þó svo að ég sé "bara" komin 16 vikur þá er það eitthvað sem ég virkilega þarf á að halda. Mjaðmagrindin mín er nefnilega farin að stríða mér svolítið og mig langar að gera mitt besta í að koma í veg fyrir mikil óþægindi í henni. Ég ekki mikið til á síðustu meðgöngu (allavega ekki í minninguni) en núna er ég strax farin að finna óþægindi og ljósmóðirin mín talaði um að þar sem það er minna en 1,5 ár frá síðustu fæðingu þá getur maður verið extra viðkvæmur og hormónarnir í líkamanum eru ekkert að hjálpa til við það. Ég ætla allavega að halda áfram að mæta í sundið þegar ég get og fara líka oftar í sund sjálf. Svo hlakka ég til að prófa meðgöngujóga í vatni þegar við flytjum suður.

Ég vona að tíminn haldi áfram að líða svona hratt þar sem ég er farin að hlakka til að flytja, þó svo að ég kvíði reyndar svolítið fyrir því að þurfa að skipta um ljósmóðir og lækni. Mér líkar líka mjög vel við meðgöngueftirlitið hér og hræðist svolítið stóra landspítalann þar sem að maður verður örugglega meira ósýnilegur heldur en hér fyrir norðan!

Þetta varð nú aðeins lengra en ég hafði hugsað mér en það er aðeins skemmtilegra að blogga heldur en að skrifa útdrátt úr leiðinlegri fræðigrein! 

- Sóley