Friday, September 5, 2014

38 vikur - Meðganga eftir missi


Mér tókst það, ég er gengin 38 vikur í dag! Litli prinsinn er orðinn stór og flottur og virðist hafa það mjög gott í bumbuni. 


Ég er ekki búin að vera jafn opin með mínar tilfinningar og ég hafði hugsað mér að vera, sumt vill maður bara hafa fyrir sig og ég hef þar að leiðandi ekki bloggað neitt síðustu vikur. Ég er reyndar búin að vera frekar anti-social í sumar og búið mér til einhverskonar ósýnilegan varnarvegg..  Ég á samt sem betur fer nokkrar góðar vinkonur og yndislegann kærasta sem hafa reynst mér mjög vel.  Síðustu vikur hafa samt verið mjög fljótar að líða. Það er búið að vera mikið að gera en dagarnir hafa verið misjafnir, suma daga var kvíðinn mjög mikill og ég átti frekar marga slæma daga í ágúst. Ég vil samt halda þessari færslu á jákvæðari nótunum þar sem ég vil halda í jákvæðnina sem hefur fylgt mér síðustu viku. Mér virðist líða best þegar ég næ að hvílast vel og þegar ég hef eitthvað að gera yfir daginn og ég hef passað mig á því að halda góðu jafnvægi þarna á milli. 

Akkurat núna líður mér vel og ég get sagt að tilhlökkunin sé mun meiri heldur en kvíðinn. Ég er orðin mjög spennt að fá að hitta þennan litla einstakling sem að er búinn að fylgja mér í 9 mánuði og fá að kynnast honum betur. Ég er ótrúlega þakklát fyrir þessa meðgöngu, hún er búin að ganga rosalega vel og ég hef verið mjög heilsuhraust. Er þó orðin frekar þreytt núna og sef ekki jafn vel og áður en það fylgir þessu víst :)

Nú er ótrúlega lítið eftir og það eru viðkvæmir tímar framundan hjá litlu fjölskylduni minni og mig langar bara að minna á það að söknuðurinn og sorgin fylgir okkur enþá. Gleðin og sorgin haldast oft í hendur og það getur verið erfitt að skilja þar á milli. Sama hvað verður þá mun Helena Sif alltaf fylgja minni fjölskyldu og ég er enþá að læra að lifa með þessum mikla missi.
Ég er líka búin að loka facebook veggnum mínum þar sem okkur langar sjálfum að tilkynna komu litla stráksins okkar, vonandi munu allir virða það. 



Sóley