Friday, June 28, 2013

One day, Some day



Akkurat núna er ég rosalega meir og viðkvæm. Ætli það sé ekki bara hluti af þessum rússíbana sem ég kemst ekki úr. Það er nefnilega svo lítið sem þarf til að koma mér úr jafnvægi en á sama tíma er ég mjög fljót að komast aftur á skrið aftur. 

Ég get alveg sagt að ég er búin að eiga marga góða daga en samt svona góða daga sem eitthvað hvílir á mér (erfitt að útskýra þessa tilfinningu). Við fórum til Spánar í viku 13-20. júní í tilefni 50 ára afmæli Rannveigar (konu pabba). Það er langt síðan að þessi ferð var ákveðin og þetta átti að vera fyrsta utanlandsferðin hennar Helenu Sifjar. 
Þessi vika var alveg frábær og einkenndist af bjór, kokteilum, sól og almennri gleði. Það var ekkert stress og við höfðum það bara gott. Við fórum í Terra Mitica sem er eitt stærsta tívolí í Evrópu og eyddum alveg heilum degi þar. Ég fór reyndar ekki í neitt rosalega mörg tæki en þessi garður er algjör snilld, í lok dagsins fórum við í Sirkus sem var rosalega flottur og góður endir á deginum.


Ég get ekki sagt að ég hafi tekið mikinn lit en ég varð rauð og er búin að "skipta um ham" :) Ég brann aðeins á öxlunum sem er ekki alveg það besta. Við vorum líka svoldið heppin og lentum í útsölu í Primark og H&M, hefðum reyndar getað verslað miklu meira en við gerðum ef "nennið" hefði verið til staðar.
EN í gleðini þá verður tómarúmið svo stórt og þessar "hvað ef" og "hvernig" spurningar skutust oft upp í kollinn á mér. Pínu litlir hlutir komu mér aðeins úr jafnvægi og ég var alltaf að hugsa hvernig þetta væri ef Helena hefði verið hjá okkur. Á tímabili fanst mér ég sjá lítil börn allstaðar og ef það voru ekki börn þá voru það óléttar konur. Það eru ekki allir sem skilja hvað ég er að fara með þessu en það verður bara að vera svoleiðis.

Í heildina litið var þetta góð ferð en söknuðurinn var mjög mikill. 

Við fórum svo í ör-útilegu á laugardaginn eftir að við komum heim, ákváðum að viðra tjaldvagninn þegar við fórum í þrítugsafmæli hjá vini Gísla. Við pökkuðum okkur svo saman um leið og við vöknuðum, fórum í smá heimsókn til ömmu og afa á Kvennabrekku og í leiðini fórum við aðeins í kirkjugarðinn þar sem að amma var búin að gróðursetja nokkur lítil blóm hjá leiðinu :). Við brunuðum svo bara heim Það er nefnilega alltaf rosalega gott að komast heim aftur, sama hversu gaman það er í fríinu. Næst á dagskrá er bara vinna og meiri vinna og vonandi ein eða tvær útilegur, sumarið hér fyrir norðan er búið að vera mjög fínt og ég vona að sólin haldi áfram að skína á okkur. 
Ég er kanski búin að skrifa í hringi núna, er svo ringluð og viðkvæm eitthvað.

One day, someday - the day when we are together again, all of this will be one distant memory.

Regnbogar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. 

-Sóley

Sunday, June 9, 2013

Ég á líka góða daga



Það er svo yndislegt þegar maður næt að njóta augnabliksins án þess að fá samviskubit yfir því. Ég hef skrifað um þetta samviskubit áður og í upphafi var það alltaf mjög mikið og ég virtist ekki ráða við það. Ég fæ stundum samviskubit ef ég hef gert eitthvað skemmtilegt eða næ að gleyma mér í svolítinn tíma. Núna um helgina skemmti ég mér vel og samviskubitið lét mig í friði.
Við fengum gesti til okkar yfir helgina og þó ég var að vinna náðum við að skemmta okkur saman. Við áttum svo mjög skemmtilegt kvöld í gær, við elduðum góðan mat og spiluðum "drunken Jenga" sem er ótrúlega skemmtilegur drykkju leikur og svo kíktum líka aðeins niður í bæ. Þrátt fyrir að ég hafi fengið heilt bjórglas yfir kjólinn minn og verið við það að kafna úr hita inni á pósthúsbarnum þá náði ég að skemmta mér vel.

Það er ekki annað hægt en að fara brosandi inn í næstu viku þar sem þessi vinnuvika verður stutt, eftir vinnu á miðvikudaginn ætlum við að leggja af stað til Reykjavíkur þar sem við erum svo að fara að fljúga til Spánar á fimmtudeginum! ÉGGETEKKIBEÐIÐ - sól og bjór með góðu fólki.

Ég er svo þakklát fyrir fólkið sem stendur mér næst, það eru allir svo skilningsríkir og yndislegir að ég gæti eiginlega ekki verið heppnari. Enda hefur mér alltaf þótt það betri kostur að eiga fáa góða vini heldur en marga kunningja. Bestu vinkonur mínar hafa staðið svo vel við bakið á mér þegar ég þarf á því að halda og þær nenna að hlusta þegar ég þarf að tala - Takk

Mig dreymdi fullt af hvítum dúfum í nótt - Samkvæmt draumaráðningum
boðar það ekkert nema gott (frið og ást). kv. Væmna gellan! 

- Sóley

Wednesday, June 5, 2013

Von eða eitthvað í þá áttina



Þegar maður á slæmann dag, fær slæmar fréttir eða lendir í einhverju slæmu þá er rosalega erfitt að finna vonina. Vonina um betri daga og bjartari framtíð.
Ég lofaði sjálfri mér að vera hreinskilin og segja sannleikann í þessu bloggi mínu en sumir hlutir eru of persónulegir til þess að vera að deila á netinu. 

Ég get alveg sagt að ég er búin að eiga marga góða daga, marga daga sem ég get notið mín og lifað "eðlilegu" lífi. en sumir dagar eru bara of erfiðir, sérstaklega þegar maður virðist ekki sjá fram á betri tíma eða á bara erfitt með sjálfan sig. Í gær átti ég mjög slæmann dag og ég get ekki útskýrt afhverju, sumir dagar eru bara svona. Eftir að við misstum Helenu er ég einhvernveginn allt öðruvísi en ég var áður, þar á meðal er viðkvæmnari og næmnari. Tilfinningarnar eru sterkari og ég sé fegurð í ýmsu sem ég hefði líklega ekki séð áður. 

Ég er að reyna að halda áfram, njóta þess sem ég hef og vera þakklát fyrir lífið. En bara .....
...Það er svo erfitt að útskýra og margar tilfinningar sem búa innra með mér. 


- Sóley