Um 8 leytið í morgun hrökk ég upp úr vondum draumi, í þessum draumi var ég hágrátandi og mér leið svo rosalega illa. Í þessum draumi hafði Gísli dáið. Ég var alein og enginn með mér, búin að missa barnið mitt og manninn minn. Þessi ljóti draumur var í raun ekki draumur heldur martröð, versta martröð sem ég hef fengið. Rosalega var samt gott að vakna og sjá að Gísli var þarna sofandi við hliðiná mér.
Ég fór svo að hugsa út í það hversu gott það væri nú að vakna upp úr þessari raunverulegu martröð sem ég er búin að lifa við síðustu 3 og hálfan mánuð. Ef ég gæti bara vaknað og allt væri eins og það ætti að vera.
Ef ég gæti bara vaknað og Helena Sif væri á lífi.
Ef ég gæti bara vaknað og lífið væri eins og við vorum búin að plana.
En þetta er víst ekki martröð heldur raunveruleikinn minn – Raunveruleiki sem ég er að læra að lifa með og á hverjum degi óska ég þess að minn raunveruleiki væri öðruvísi. Að í mínum raunveruleika væri dóttir okkar með okkur, hún væri 3,5 mánaða og líklegast farin að brosa og hjala til okkar.

No comments:
Post a Comment