Tuesday, April 30, 2013

Styrkur

Hugrekki og styrkur eru eiginleikar sem allir búa yfir. Þú veist bara ekki hversu sterk þú ert fyrr en þú virkilega hefur ekki aðra valmöguleika og verður þar að leiðandi að sýna hugrekki og finna styrkinn sem býr innra með þér. 

Fyrst þoldi ég ekki þegar fólk sagði við okkur að við værum svo dugleg og sterk þar sem við höfðum ekkert val um annað. Við urðum bara að horfast í augun við raunveruleikann og halda áfram þar sem það var ekkert annað í boði. Fólk hugsar og segir oft: "ég gæti ekki lifað ef barnið mitt mundi deyja". Þetta eru auðvitað aðstæður sem að enginn vill nokkurntímann lenda í sjálfur en þegar að maður er settur í aðstæður sem maður ræður ekki við þá getur maður ekki annað en tekið við þeim og unnið úr því sem gerist. Ég veit að allir meina vel en maður tekur ýmsa hluti alltof nærri sér þegar maður er í djúpri sorg.
Fólk hræðist þetta óþekkta, hluti sem þeir geta ekki einu sinni ímyndað sér að muni nokkurntímann koma fyrir þau. En innst inni búa flestir yfir meiri styrk en þau nokkurtímann gætu ímyndað sér.

Ég hef þennan styrk, ég veit að ég get verið hugrökk. Ég veit að ég get þetta en ég vildi óska þess að ég hefði ekki þurft að komast að því á þennan hátt. 






Ég er ekki að segja að ég sé einhver ofurhetja eða að ég muni sigra heiminn en ég er bara búin að vera að átta mig á því betur með hverjum deginum að það er eitthvað til í því sem að fólk sagði fyrstu vikurnar eftir að Helena dó (Ég þoldi það reyndar ekki þá).

Í þessari viku förum við í síðasta skipti í stuðningshópinn sem við erum búin að vera í síðan í febrúar. Við megum taka með okkur eitthvað sem tengist barninu okkar og ég ákvað að búa til smá myndaalbúm sem ég ætlaði að vera löngu búin að gera, en af einhverjum ástæðum hef ég frestað því alltof lengi. Ég prentaði út alveg 40 myndir og setti þær í lítið fjólublátt albúm. Ég hef ekki sett myndir af Helenu Sif á netið og mun ekki gera það en það eru myndir af henni hérna heima hjá okkur og hjá ömmum og öfum. Ég sé samt svoldið eftir því að hafa ekki verið búin að gera svona albúm fyrr vegna þess að það eru alveg einhverjar vinkonur mínar sem hafa aldrei séð myndir af henni.

- Sóley




No comments:

Post a Comment