Monday, April 15, 2013

6 mánaða engill



Í dag eru 6 mánuðir síðan að litla fallega stelpan mín fæddist sofandi inn í þennan heim. Ég sakna hennar svo mikið að orð fá því ekki lýst. 
Ég veit að ég á ekki að hugsa svona en 6 mánaða barn er farið að gera heilann helling. Á þessum aldri eru börn orðnir miklir karakterar og ég hugsa oft hvernig ætli Helena Sif hefði orðið. Ég á örugglega alltaf eftir að hugsa aðeins út í það hvað ef, sérstaklega þegar ég sé börn sem eru fædd á svipuðum tíma og hún. 


Þessir sex mánuðir hafa verið fullir af allskonar tilfinningum, góðum og slæmum. Þeir hafa í raun einkennst af rússibana sem ég get ekki stoppað. Suma daga er ég alveg í rusli, aðra rosalega dofin og enn aðra hef ég það ágætt. Ég geri mér grein fyrir því að ég er ekki sama manneskja og ég var fyrir sex mánuðum, ég mun líklegast aldrei verða eins og ég var. Ég mun ekki eiga áhyggjulausa meðgöngu aftur og er mjög þakklát fyrir þann tíma sem ég átti með dóttir minni þó að hann hafi ekki verið langur.
Ég ákvað strax að halda minningu Helenu Sifjar góðri, ég vil frekar fagna því að hún hafi verið til heldur en að lifa í eftirsjá og láta þessa atburði buga mig. Það er ekki auðvelt að fara eftir þessu, langt frá því. En ég reyni eftir besta móti að halda í góðu minningarnar og þetta líf sem við bjuggum til og ég átti 9 mánuði með. Í framtíðini vil ég halda upp á afmælið hennar og sá dagur mun líklegast alltaf vera tileinkaður litlu  fjölskyldunni minni.. :)

Það er rosalega erfitt að halda í bjartsýnina og jákvæðnina. Þar sem að svartsýnin er auðveldari, hún kemur líka alveg sjálfkrafa stundum og það er erfitt að breyta hugsunarhættinum. Þetta mun taka mun lengri tíma, ég er enþá að syrgja dóttir mína og mun halda því áfram í gegnum lífið. Ég vona bara að ég nái betri sátt, því að ég veit að ég get ekki breytt fortíðini þó svo ég vildi óska þess að það væri hægt og ég veit að þetta mun fylgja mér í gegnum lífið. Það er bara mitt val að ákveða hvernig ég ætla að takast á við erfiðleika.

Í dag er ég óvenju bjartsýn, það er svoldið skrýtið að vera svona sorgmæddur innst inni í hjartanu en geta samt haldið áfram og lifað "eðlilegu" lífi (hvað sem eðlilegt er).

Ég læt ljóð sem hefur hjálpað mér mikið síðustu mánuði fylgja með. Það segir svo mikið og talaði til mín fyrstu dagana 


Mamma, ekki gráta mig, ég veit þú saknar mín. 
Mig langar að vera hjá þér og þerra tárin þín
Ég fékk aldrei að sjá þig og blíðu brosin þín,
Guð vantaði lítinn engil og kallaði mig til sín.

Segðu pabba að ég elsk'ann því pabbi á líka bágt,
faðmaðu hann fyrir mig og hvíslaðu ofurlágt.
Segð'onum frá stjörnunni sem á himnum skærast skín, 
kennd'onum að þekkja hana því hún er stjarnan mín.

Núna áttu lítinn engil sem vakir yfir þér,
ég passa líka pabba, segðu honum það fra mér.
Það eru hér svo margir sem þykir vænt um mig,
fjöldi fallegra engla sem gæta mín fyrir þig.

Tendraðu lítið kertaljós til að lýsa þér til mín,
láttu a leiðið mitt hvíta rós, það læknar sárin þín.
Þegar sorgarinnar skuggi dvín, þá muntu minnast mín 
og tár þín verða gleðitár því að ég verð ávallt þín. 


Vonandi fara góðu dagarnir að verða enþá fleiri 
- Sóley










No comments:

Post a Comment