Friday, April 5, 2013

Nýrnasteinn og Morfíndraumur


Eftir vinnu í gær gat ég varla staðið eða setið uppi fyrir verkjum í maganum sem leiddu út í bak. Ég reyndi að fara í sturtu og sjá hvort það hjálpaði til við bakverkinn, tók svo verkjatöflu og reyndi að leggja mig, það tókst nú ekki. Hver hreyfing var sársaukafull. Þegar klukkan var að verða 8 þá ákváðum við að drífa okkur á læknavaktina sem er á spítalanum hérna á Akureyri. Eftir svolitla bið, og skoðun hjá læknum fékk ég morfín í æð og þá loks gat ég slakað á. Ég held að ég hafi ekki upplifað jafn slæman sársauka síðan ég var í hríðum. Læknarnir töldu mig vera með nýrnasteina og létu mig fá stíl sem átti að hjálpa til við að slá á verkina. 

Við fengum svo að fara heim með einhver lyf og ég átti að mæta daginn eftir í myndatöku til þess að finna nýrnarsteinana.

Í nótt dreymdi mér svo draum þar sem að ég og Gísli vorum að fara að svæfa barnið okkar sem var svona ca. 6 mánaða. Barnið var ekkert á því að fara að sofa þannig að við enduðum á því að vera að kítla það og knúsa. Það hló og brosti svo fallega til okkar. Þetta var bara eitthvað ungabarn, kom aldrei fram hvort að þetta hefði verið stelpa eða strákur en brosið var mjög fallegt og einlægt. Helena Sif ætti að vera næstum því 6 mánaða en þetta var ekki hún, eða ég held allavega ekki. 

Svo fór ég upp á spítala í morgun í sneiðmyndatöku og skuggamyndatöku. Það fanst reyndar bara einn steinn en hann fer svo vonandi bara sjálfur. Ég mun allavega eyða fyrstu vinnuhelgini minni heima með parkódín og vatni! Reikna ekki með því að verða starfsmaður mánaðarins eftir að hafa hringt og látið vita að ég mæti ekkert í vinnu um helgina. Ég fer svo í skoðun á mánudaginn til þess að sjá hvort að steinninn skili sér ekki örugglega.


Það getur verið svo skrýtið með þessa drauma hvað þeir hafa mikil áhrif á mann. Mér leið frekar vel þegar ég vaknaði, en kanski var það bara samanspil af verkjalyfjum :) 


No comments:

Post a Comment