Saturday, November 23, 2013

When everything hurts, do what hurts the least.


Ég er eitthvað svo tóm núna, ætlaði að fara að vinna í skóla verkefni en fór að skoða myndir og falleg quote í staðin. Stundum þegar maður leyfir sér að hugsa of mikið þá dettur maður ofan í holu. Einhverskonar sjálfsvorkunar holu og maður missir aðeins tenginguna við raunveruleikann. Maður sér aðeins það slæma í lífinu og allt það góða sem maður hefur er þarna fyrir ofan en maður gleymir því og það eina sem kemst að er hversu slæmt lífið getur verið. Ég er sem betur fer búin að læra aðeins inn á þetta hjá mér, ég get yfirleitt séð hvað er rétt og hvað er rangt en það er mjög erfitt og það getur tekið smá tíma að átta sig. 

Tökum bara sem dæmi samviskubitið sem ég er búin að vera að díla við í meira en ár, það hefur skánað mikið vegna þess að ég er svo meðvituð um að það eigi ekki rétt á sér. Samt sem áður kemur það, það kom meira að segja síðasta sunnudag vegna þess að ég hafði farið á ótrúlega skemmtilega tónleika og átt mjög skemmtilegt kvöld. Þessi vonda tilfinning um að maður eigi ekki skilið að skemmta sér svona vel. Ég veit samt vel að ég á rétt á því að skemmta mér eins og allir aðrir. Ég veit ekki hvaðan þetta kemur og ég vona að ég eigi ekki eftir að þurfa að díla við þetta allt mitt líf. 

Ég reyni að líta á björtu hliðarnar á lífinu, ég reyni að njóta hvers dags og grípa litlu augnablikin sem að lífið hefur upp á bjóða en það er ekkert alltaf auðvelt. 


Nú fer að styttast í jólin og suma daga get ég ekki beðið, innst inni er ég algjört jólabarn en það er eitthvað sem heldur aftur að mér. Ég slekk á útvarpinu eða skipti um útvarpsstöð þegar ég heyri jólalag. Jólin eru hátíð barnanna og stór fjölskylduhátið. Eins og með flestar hátíðir og merkilega daga þá eru þeir stanslaus áminning á það hvernig lífið hefði geta verið og hversu mikið vantar inn í líf mitt. Það þarf ekki meira en bæklingur frá Toy'sRus til þess að koma manni úr jafnvægi. (Um daginn var ég að skoða bæklinginn í leit að hugmyndum að jólagjöf fyrir lítinn frænda en þegar ég fletti í gegnum hann endaði ég á síðu þar sem voru sparkbílar og allskonar dót sem hefði verið tilvalið að gefa lítlli 14 mánaða stúlku í jólagjöf.)

Svona mun þetta líklegast alltaf vera, ég er að læra að lifa með þessu en stundum virðist þetta ekkert ætla að verða auðveldara með tímanum. 

- Sóley 



No comments:

Post a Comment